Mosi er dauður á stóru svæði við Hellisheiðarvirkjun. Náttúrufræðistofnun fékk ábendingu um þetta fyrir helgi og skoðaði málið á föstudag. Þá kom í ljós að mosi var dauður á stórum köflum á stóru svæði vestan við stöðvarhús virkjunarinnar allt að Svínahrauni og þjóðvegi eitt.
Hinu megin við þjóðveginn er ástandið hinsvegar mun betra og eins virðist mengunin minni austan við afleggjarann upp að virkjunarsvæðinu.
Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir nær öruggt að um mengun sé að ræða sennilega af völdum brennisteinsvetnis. Hann segir að skemmdirnar séu ekki ólíkar skemmdum af völdum bruna og það geti tekið mosa mjög langan tíma að jafna sig. Sé mengunin viðvarandi þá jafni hann sig væntanlega aldrei og þá verði þetta svæði mjög gróðurlítið þegar fram líði stundir.