Litlu minna en Hálslón

Tungnaárlón verður fimmtíu ferkílómetrar og fjórða stærsta stöðuvatn landsins, ef hugmyndir um Bjallavirkjun verða að veruleika. Það var fyrst kallað Stóri sjór. Komið hefur fram í fréttum að lónið verði þrjátíu ferkílómetrar en í raun er það miklu stærra og litlu minna en Hálslón.

Tungnaá er ósnortin frá jökli að Krókslóni en fyrst var hróflað við ánni með Hrauneyjar og Sögölduvirkjunum. Hið risavaxna Tungnaárlón verður í 600 metra hæð yfir sjávarmáli.  Lónið verður á svæði sem er skammt austan við Veiðivötn og á náttúruminjaskrá. Inntakslón virkjunarinnar yrði síðan í jaðri friðlandsins að fjallabaki.

Eysteinn Hafberg, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun, segir þessa framkvæmd ekki mikla röskun á náttúru miðað við það sem áður hafi verið gert en verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu á vatnsorku og jarðvarma muni taka afstöðu til þess. Hann þvertekur einnig fyrir getgátur um, að Landsvirkjun sé að nota Bjallavirkjun sem grýlu á umhverfisverndarsamtök vegna andstöðu við virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Þetta hafi verið í undirbúningi í mörg ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert