Pappír og plast í ofn

„[Sementsverksmiðjan] vill fá að brenna eldsneyti sem er unnið úr sorpi,“ segir Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akraness, spurður um drög að starfsleyfi fyrir sementsverksmiðjuna þar í bæ. Verða drögin kynnt á borgarafundi í bæjarþingsalnum á Akranesi í kvöld.

Bæjarstjórinn segir að sementsverksmiðjan hyggist taka við hreinsuðum og þjöppuðum pappír, dagblaðapappír sem skrifstofupappír, sem og plasti . Vissulega hafi þetta verið flokkað sem úrgangur og flutt í miklum mæli í brennslu erlendis, en verksmiðjan sjái sér nú hag í því að vinna eldsneyti úr þessu og nýta það í gjallofninn.

„Það er óheppilega orðað í þessum drögum að starfsleyfi að tala um úrgang og sorp. Í rauninni er um að ræða unnið eldsneyti, aðallega úr pappír og plasti,“ segir Gísli.

„Þetta er eldsneyti í algjörlega lokuðu kerfi,“ heldur bæjarstjórinn áfram, og bendir á að hingað til hafi verið tekið við alls konar úrgangsolíu, sem og kolum, og veitt inn á ofninn. „Það sem að sparast í þessu fyrir Sementsverksmiðjuna er að það kemur inn eldsneyti í þessu formi og það sparar þá eldsneyti í formi kola eða olíu,“ bætir Gísli við, og tekur fram að búast megi við að mengun minnki. Loks telur bæjarstjórinn líklegt að þessi lausn sé ódýrari fyrir samfélagið heldur en að senda pappírinn úr landi til brennslu.

Ljóst er að skiptar skoðanir eru meðal íbúa um ágæti þessa nýja fyrirkomulags. „Hinn hái strompur sér um að úða úrgangi í tuga metra radíus svo megnið af íbúunum kemur til með að fá rykagnirnar beint í nös,“ skrifar til að mynda Margrét Jónsdóttir, íbúi á Akranesi, á vefsvæðinu Skessuhorn.is. Bæjarstjórinn segir að slíkar skoðanir séu skiljanlegar.

„Fólk er alltaf hrætt við það sem er nýtt. Það er alveg eðlilegt,“ segir hann, og tekur sem dæmi andstöðu íbúa við kolabrennslu verksmiðjunnar sem síðan hafi gefist afar vel.

Í hnotskurn


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert