Rekstrarstöðvun Futura hefur ekki áhrif á ferðir Íslendinga

mbl.is/Brynjar Gauti

Öll starfsemi spænska leiguflugfélagsins Futura International Airways var stöðvuð eftir  miðnætti á laugardag vegna erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins. Futura annast meðal annars leiguflug fyrir Úrval Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir, dótturfélög Ferðaskrifstofu Íslands. Að sögn Helga Jóhannssonar, stjórnarformanns Ferðaskrifstofu Íslands, mun þetta ekki hafa nein áhrif á ferðir á þeirra vegum þar sem þegar hafi verið samið við önnur flugfélög um leiguflug.

Futura fór fyrir helgi fram á greiðslustöðvun og lagði vegna þess fram rekstraráætlun sem spænsk yfirvöld þurfa að samþykkja. Spænsk flugmálayfirvöld kröfðust þess um helgina að Futura skilaði inn flugrekstrarleyfi á meðan verið væri að fara yfir gögnin,  samkvæmt heimildum danskra og spænskra fjölmiðla. Eru starfsmenn félagsins á fundi í Palma á Mallorka en félagið hóf flug á ný í dag þar sem svo virðist sem spænsk flugmálayfirvöld hafi heimilað félaginu að hefja starfsemi á ný.

Að sögn Helga var strax gripið til ráðstafana vegna farþega íslensku ferðaskrifstofanna og leigðar flugvélar til þess að annast leiguflug á þeirra vegum út þessa viku. Stöðvun á starfsemi Futura hefur ekki haft nein áhrif á farþega á vegum dótturfélaga Ferðaskrifstofu Íslands og mun ekki hafa nein áhrif, að sögn Helga.

Hann segir að auðvelt hafi reynst að útvega aðrar flugvélar. „Þrátt fyrir að fréttir hafi borist af því að Futura sé að hefja flug á ný þá viljum við vera 100% örugg um okkar farþega og settum upp flug með öðrum flugfélögum út þessa viku," segir Helgi. „Við ætlum ekki að láta þetta trufla okkur, hvort sem þeir halda áfram starfsemi eða ekki."

Helgi segir að staðan verði skoðuð betur síðar í vikunni, hvort áfram verði flogið með Futura eða hvort áfram verði samið við önnur flugfélög. Enda sé töluvert framboð af flugvélum þar sem háannatímanum sé lokið og ýmsar ferðaskrifstofur í Evrópu hafa þurft að fella niður ferðir vegna minni eftirspurnar.

Futura er eitt stærsta leiguflugfélag Evrópu en það var stofnað árið 1989. Er talið að hátt eldsneytisverð skýri greiðsluerfiðleika félagsins en í síðasta mánuði voru laun 1200 starfsmanna Futura lækkuð. Alls er félagið með 38 Boeing 737 þotur á sínum snærum og flutti 3,7 milljónir farþega á síðasta ári.

Á vef Independent á Írlandi kemur fram að allt flug á vegum dótturfélags Futura International, Futura Gael, á Írlandi hafi verið stöðvað á miðnætti. Ekki liggi fyrir hvaða áhrif þetta hafi á ferðalög Íra en reynt verði að tryggja heimkomu allra sem eiga pantað flug með félaginu. Haft er eftir fjármálastjóra Futura Gael, Barry Matthews, að Futura International leiti nú að nýjum fjárfestum svo hægt verði að bjarga rekstri félagsins.


 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert