Veiðar sem miðast eingöngu við að ná stórfiski úr fiskistofnum geta leitt til þess að stofninn verði til lengri tíma litið samsettur af erfðafræðilega lakari einstaklingum. Ef ekki er tekið tillit til þessara áhrifa getur það dregið verulega úr arði af nýtingu í framtíðinni. Þetta er meðal niðurstaðna Daða Más Kristóferssonar, sérfræðings við hagfræðistofnun Háskóla Íslands, sem birtist í grein í Journal of Environmental Economics and Management.
Að sögn Daða hefur ekki verið rannsakað áður í hagfræðinni hvaða áhrif það hafi á eiginleika fiskistofna að veiðar séu takmarkaðar við bestu fiskana. „Þú breytir tíðni gena í stofninum. Það þýðir, til lengri tíma litið, að þú færð stofn með lakari einstaklinga. Þú dregur úr virði auðlindarinnar,“ útskýrir Daði, og á þá við að þau gen sem stýra æskilegum eiginleikum hverfi ef þeir einstaklingar sem genin hafa séu veiddir. Spurningin sem tekist er á við í greininni er hvernig heppilegast sé að stýra nýtingu auðlindarinnar til að hámarka virði hennar til lengri tíma þegar virði ræðst af erfðum. Ef náttúrulegu yfirburðirnir hjá þeim einstaklingum sem veiddir eru séu mjög miklir kunni veiðarnar að hafa neikvæðar afleiðingar til lengri tíma litið. „Niðurstöðurnar benda til þess að það skipti höfuðmáli að taka tillit til erfðaauðlinda þegar ákveðið er hvernig á að nýta auðlindina,“ segir Daði.