Allt klárt fyrir Skotaleikinn

Skrautlegir Skotar héldu fögnuð á kránni The Highlander í gær …
Skrautlegir Skotar héldu fögnuð á kránni The Highlander í gær og verða líklega fjörugir á leiknum í kvöld. mbl.is/Frikki

Í nógu var að snúast hjá starfsmönnum KSÍ og Laugardalsvallar í gær. Svo verður sjálfsagt allt fram að landsleiknum við Skota sem hefst í Laugardal klukkan 18.30. Í gærkvöldi voru einungis örfáir miðar eftir, en tíu þúsund áhorfendur komast fyrir í stúkunum.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að úrslit í landsleik Íslendinga við Norðmenn á laugardag hafi aukið mjög umtal og auglýsingu á leiknum, bæði heima fyrir og erlendis. Tap Skota í Makedóníu á sama tíma hafi í raun haft sömu áhrif. Skoska knattspyrnusambandið fékk 1.200 miða til ráðstöfunar og pilsklæddir Skotar settu svip á miðborgina í gær.

Ómar Smárason hefur veg og vanda af komu erlendra fjölmiðlamanna sem fjalla um leikinn. Hann áætlaði í gær að um 80 erlendir fjölmiðlamenn sem fjalla beint um leikinn í blöðum og á ljósvaka kæmu til landsins, auk tæknimanna og aðstoðarfólks. Leikurinn verður m.a. sýndur beint á Bretlandseyjum.

Mikil öryggisgæsla

Um 150 manns úr Hjálparsveitum skáta í Reykjavík og Garðabæ annast öryggisgæslu meðan á leik stendur. Einnig verða um 30 manns frá lögreglunni við umferðarstjórnun og önnur störf. Fyrir hádegi í gær voru öryggismálin rædd á fundi í Laugardalnum.

Sérstakur inngangur verður fyrir Skotana og verða þeir að mestu aðskildir frá íslenskum áhorfendum. „Við reiknum bara með prúðum gestum frá frændum okkar Skotum, sem eru hingað komnir til að skemmta sér á jákvæðan hátt,“ segir Jóhann G. Kristinsson, vallarstjóri í Laugardal.

Jóhannes Ólafsson, einn félaga í Áfram Ísland-hópnum, stóð vaktina í turninum í Mæðragarðinum við Lækjargötu í gær, þar sem ýmis varningur í fánalitum er til sölu. Hann sagði að sala á fánum, treflum, húfum og öðrum varningi hefði gengið vel að undanförnu. Hápunkturinn hefði verið í kringum síðustu leiki íslenska handboltaliðsins á Ólympíuleikunum. Síðustu daga hefði verið komið að fótboltanum og hópurinn yrði áberandi í kvöld.

Líflegir og vekja samstöðu

„Okkar markmið er fyrst og fremst að reyna að vera líflegir og vekja samstöðu meðal áhorfenda, sama í hvaða íþróttagrein verið er að keppa,“ segir Jóhannes. „Fjöldi manns hefur farið með okkur í ferðir til útlanda á síðustu árum og yfir sjö þúsund manns eru skráðir í klúbbinn. Í dag hafa fleiri Skotar heimsótt okkur í rigningunni en Íslendingar, en á leiknum ætlum við að standa saman og hrópa kröftuglega: Áfram Ísland.“
Jóhann G. Kristinsson vallarstjóri ræðir við Víði Reynisson öryggisstjóra, Gunnar …
Jóhann G. Kristinsson vallarstjóri ræðir við Víði Reynisson öryggisstjóra, Gunnar Gylfason frá KSÍ, Árna Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjón og Vilhjálm Gíslason lögreglufulltrúa um öryggismálin.
Jóhannes Ólafsson í Áfram Ísland-hópnum, stóð vaktina í turninum í …
Jóhannes Ólafsson í Áfram Ísland-hópnum, stóð vaktina í turninum í Mæðragarðinum. Friðrik Tryggvason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka