Gylfi: Ennþá langt í þjóðarsátt

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ. mbl.is/Golli

Það er út í hött að stilla hlutum þannig upp að komin séu drög að samkomulagi milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í efnahagsmálum þjóðarinnar, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ.

Hann segir rétt að samtökin hafi fundað og rætt sín á milli um þessi mál að undanförnu og að SA hafi nýlega lagt fram hugmyndir sínar í þeim efnum. Hins vegar segir hann það einungis hugmyndir og ekki hafi verið ætlunin að vinna þau mál með samræðu í gegnum fjölmiðla að svo stöddu. Hann segir fulltrúa ASÍ og SA ekki nota orð eins og ,,þjóðarsátt" í þessu samhengi.

Hann segir þó ljóst að hvorki SA né ASÍ hugnist aðgerðaleysi stjórnvalda í efnahagsmálum. ,,Það liggur ljóst fyrir og hefur margoft komið fram í málflutningi bæði ASÍ og SA að þörf er á því að þessi stóru samtök með einhverjum hætti snúi bökum saman í því að finna leiðir út úr þeim ógöngum sem okkar efnahagsmál eru komin í," segir Gylfi.

„Miðstjórn ASÍ hefur margoft ályktað um það og reynt að setja þrýsting á stjórnvöld. Það er einfaldlegaþannig að stjórnvöld hafa ekki tekið neitt frumkvæði í málinu. Það hefur verið aðgerðaleysi, sem hefur reyndar af sumum innan stjórnarflokkanna verið talið besta aðgerðin. Það er alveg ljóst að hvorug samtökin eru þeirrar skoðunar," segir Gylfi. Hann segir samtökin hafa fundað síðan í vor á vettvangi forsendunefndar kjarasamninga, nokkuð reglulega, til að reyna að glöggva sig á stöðunni og átta sig á mögulegum aðgerðum. ,,Það er bæði eftirspurn eftir því og væntingar, bæði í röðum atvinnurekenda og launþega að þessir aðilar taki einfaldlega frumkvæðið í málinu."

Hann segir ennfremur liggja ljóst fyrir að ASÍ sé mótfallið sumum þeim hugmyndum sem SA hefur sett fram og nefndar hafa verið í þessu samhengi. Ein þeirra er að Íbúðalánasjóður fari af íbúðalánamarkaði og önnur sú að kjarasamningar verið teknir til endurskoðunar strax í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert