Hnúfubak rak í dag á fjöru í Þernuvík í Ísafjarðardjúpi. Að sögn Konráðs Eggertssonar, hrefnuveiðimanns, sem á sumarhús í Þernuvík, er hvalurinn á lífi. „Já hann er á lífi, það sagði mér Eyþór Þórðarson á Fiskistofu. Hann er búinn að skoða dýrið“.
Aðspurður um að hvort að það sé svo mikið af hval í hafinu að hann sé farinn að reka upp að dyrum heima hjá honum segir Konráð: „Það hlýtur að vera, þeir verða að drepast einhvern veginn þessi grey.“
Hann telur að hvalurinn sem rak á fjöru Þernuvíkur sé eitthvað sjúkur því hvalir syndi ekki á land bara að gamni sínu.
Lögreglan á Ísafirði fékk í dag tilkynningu um hvalrekann en hvalurinn var ekki á staðnum þegar að var komið.