Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti hefur stækkað á teikniborðinu úr 2,5 MW í allt að 15 MW virkjun. Ástæðan er hár kostnaður við umhverfismat að sögn landeigenda, hjónanna Ásdísar E. Sigurjónsdóttur og Ragnars Jónssonar. Ljóst er að matið er jafndýrt hvort sem virkjunin er 1 MW eða 15.
Hjónin höfðu áhyggjur af því að sú litla virkjun sem ætlunin var að reisa myndi ekki standa undir kostnaði, sem færi aldrei undir 10-15 milljónir króna, hið minnsta, óháð stærð, en virkjunin gæti nýtt allt að 20 rúmmetra á sekúndu.
„Þess vegna var ákveðið að skoða virkjunarmöguleikana út í það ýtrasta enda hefði stærri virkjun litlu meira rask í för með sér,“ segir Ragnar. „Með stærri virkjun verður hluti orkunnar ótryggur, eða einfaldlega ekki til yfir vetrartímann, en miðað er við að raforkan fari út á landsnetið.“
Umhverfissamtök kærðu í fyrra úrskurð Skipulagsstofnunar um að virkjunin þyrfti ekki í umhverfismat. Í kjölfarið hnekkti umhverfisráðherra úrskurðinum og er áætlað að matið liggi fyrir í árslok.