Ferðaskrifstofa Íslands mun ekki bíða eftir að greiðist úr málum Futura International Airways og hefur þegar gengið frá skammtímasamningum um leiguflug fyrir næstu viku. Vinna við gerð fleiri skammtímasamninga er í fullum gangi. Þrátt fyrir lítinn sem engan fyrirvara á greiðslustöðvun Futura voru aðeins tafir á einni flugferð af fjórum í gær.
Starfsemi Futura hefur verið stöðvuð vegna erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins og óljóst er með framtíð þess. Futura annaðist m.a. leiguflug fyrir Úrval útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir, sem eru dótturfélög Ferðaskrifstofu Íslands. „Þetta var gargandi stress og læti en það tókst að bjarga málum,“ segir Helgi Jóhannsson, stjórnarformaður Ferðaskrifstofu Íslands. „Miðað við fyrirvara erum við mjög ánægð með hvernig tiltókst, en af fjórum vélum voru þrjár á réttum tíma í gær.“
Aðeins urðu tafir á heimkomu farþega frá Malaga á Spáni. Í stað þess að lenda um hádegisbil á Keflavíkurflugvelli lendi vélin í gærkvöldi.
Helgi segir að leiguflug fyrir félög Ferðaskrifstofu Íslands á næstunni verði aðallega á hendi tveggja flugfélaga, þ.e. Icelandair og Astreus. „Við náðum ágætis samkomulagi við þá og erum að fylla upp í október og nóvember.“ Hann segir einhver kostnaðarauka fylgja skammtímasamningum sem þessum en vonast til að fá svipuð tilboð og FÍ var með þegar gengið verður frá flugferðum alls vetrartímabilsins.
Ferðaskrifstofa Íslands tapar hins vegar ekki fjármunum á erfiðleikum Futura þar sem ekki hafði verið greitt fyrirfram. „Það er einmitt oft þannig að menn eru búnir að greiða einhverjar milljónir fyrirfram, en það er sem betur fer ekki tilfellið hjá okkur.“
Farþegar á vegum Ferðaskrifstofu Íslands geta því andað léttar og ekki er útlit fyrir að neinar tafir verði á flugi þeirra.