Seðilgjöld ólögmæt án samnings

„Við getum ekki séð að fjármálafyrirtæki fari að þessum fyrirmælum sem viðskiptaráðherra setti fram í febrúar á þessu ári,“ segir Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur Neytendasamtakana.

„Miðað við þær kvartanir sem við fáum á borð til okkar er fólk gjarnan rukkað um seðilgjöld. Jafnvel þó fólk óski ekki eftir að fá seðlana senda heim og vilji bara sjá þá í heimabankanum þá eru gjöld tekin.“

Hildigunnur segir að hún hafi sent bréf til banka vegna 185 króna sem var bætt ofan á rukkun frá húsfélagi. Hún fékk svar til baka sem sagði að erindi hennar væri móttekið og haft yrði samband innan sólahrings. Hún ítrekaði erindið seinna en ennþá hefur hún ekki fengið svar, fjórum sólahringum seinna. „Að fá ekki svar við þessu bendir til að ekki sé búið að taka neina afstöðu til málsins. Það skilar sér ekki til fjármálafyrirtækja að ekki eigi að innheimta seðilgjöld og við viljum að það verði sett sérstök lög við þessu.“

Það eru lög í gildi

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir það vera í lögum að ekki eigi að innheimta seðilgjöld nema gerður hafi verið samningur við viðkomandi viðskiptavin. „Ég bað Neytendastofu að gera úttekt og í ljós kom að helmingur opinberra fyrirtækja var hættur að rukka seðilgjöld eftir tilmælin. Stóra málið er að það er bannað að innheimta gjöldin nema með samningi við viðskiptavin. Það verður svo að beita sektum ef ekki er hætt að rukka seðilgjöld. Þetta er mál sem á að klára og fara með alla leið. Án sérstaks samnings um innheimtu seðilgjalda er hún ólögmæt. Ég á eftir að fá úttekt á einkaaðilum og í framhaldi af þeirri skýrslu mun Neytendastofa beita sektum verði ekki farið að þessum lögum,“ segir hann. „Við fórum í gegnum mikla vinnu í fyrra og er verið að fylgja því eftir. Eins og ég segi voru margir sem fóru eftir þessum tilmælum en sé það ekki gert verður hægt að gera kröfur um niðurfellingu. Gerist það ekki þá á að leita til Neytendastofu og hún annast málið.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert