„Við getum ekki séð að fjármálafyrirtæki fari að þessum fyrirmælum sem viðskiptaráðherra setti fram í febrúar á þessu ári,“ segir Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur Neytendasamtakana.
„Miðað við þær kvartanir sem við fáum á borð til okkar er fólk gjarnan rukkað um seðilgjöld. Jafnvel þó fólk óski ekki eftir að fá seðlana senda heim og vilji bara sjá þá í heimabankanum þá eru gjöld tekin.“
Hildigunnur segir að hún hafi sent bréf til banka vegna 185 króna sem var bætt ofan á rukkun frá húsfélagi. Hún fékk svar til baka sem sagði að erindi hennar væri móttekið og haft yrði samband innan sólahrings. Hún ítrekaði erindið seinna en ennþá hefur hún ekki fengið svar, fjórum sólahringum seinna. „Að fá ekki svar við þessu bendir til að ekki sé búið að taka neina afstöðu til málsins. Það skilar sér ekki til fjármálafyrirtækja að ekki eigi að innheimta seðilgjöld og við viljum að það verði sett sérstök lög við þessu.“