Vonast eftir stórfelldri uppbyggingu í Örfirisey

Uppbygging í Örfirisey mun ekki fara af stað fyrr en að lokinni hugmyndasamkeppni um heildarmynd hafnarsvæðisins allt frá tónlistar- og ráðstefnuhúsinu og allt út í Örfirisey. Starfshópur um hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðisins hefur verið skipaður og fer fyrsti formlegi fundur hans fram í dag.

Júlíus Vífill Ingvarsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, er formaður undirbúningshópsins og að hans mati er mikilvægt að fara að fá niðurstöðu varðandi framtíðarskipulag svæðisins. „Ég lagði fram þessa tillögu um að farið yrði fram í þessa hugmyndasamkeppni og stjórn Faxaflóahafna samþykkti þá hugmynd. Við bindum vonir við að það takist að klára þessa hugmyndavinnu fyrri hluta næsta árs. Uppbygging á þessu svæði mun taka alllangan tíma, það er verið að horfa til framtíðar og þess vegna er mikilvægt að framtíð svæðisins fari að skýrast.“

Fjárfesting vel á fjórða milljarð

Fjárfestingarfélögin Lindberg og Gómur hafa á undanförnum árum keypt upp eignir úti í Örfirisey fyrir vel á fjórða milljarð króna. Félögin hafa fyrst og fremst keypt upp eignir við Fiskislóð, Hólmaslóð og Eyjaslóð. Samtals má áætla að lóðir í eigu félaganna séu hartnær fjórir hektarar.

Ólafur Garðarsson hæstaréttarlögmaður sem er einn eigenda beggja félaganna segir að þar á bæ séu menn alveg rólegir þó að enn sé óljóst með hvaða hætti uppbyggingu á svæðinu verður háttað. „Við gerðum okkur grein fyrir því að þessi uppbygging myndi ekki skella á einn, tveir og þrír. Örfirisey þarf að skipuleggja sem heild, það verður bara gert einu sinni og það þarf að vanda til verka.“

Ólafur segir að hræringar í borgarstjórn á þessu kjörtímabili hafi vissulega orðið til þess að vinna við skipulag svæðisins hafi tafist. „Þessi tíðu borgarstjórnarskipti voru auðvitað ekki heppileg og þetta er ekki jarðvegurinn fyrir hröð og markviss vinnubrögð. Það verður bara að taka því. Ég treysti hins vegar borgaryfirvöldum og við bíðum bara rólegir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert