Dæmdur í mánaðarfangelsi fyrir ítrekaðan ölvunarakstur

mbl.is/Júlíus

Karlmaður á fertugsaldri var í héraðsdómi Norðurlands vestra í dag dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir ítrekaðan ölvunarakstur. Hann var jafnframt sviptur ökuréttindum til æviloka og gert að greiða 148.903 krónur í sakarkostnað.

Samkvæmt ákæru lögreglunnar á Sauðárkróki ók maðurinn bifreið, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (áfengismagn í blóði 3,03‰), í nóvember 2007 norður Skagfirðingabraut á Sauðárkróki, þaðan austur Skólastíg og loks suður Freyjugötu uns hann nam staðar við hús í götunni.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögregla hafi veitt bifreið mannsins athygli þar sem henni var ekið mjög hratt  norður Skagfirðingabraut. Bifreið þessari var ekið framúr annarri bifreið á móts við sundlaugina við Skagfirðingabraut. Aðvörunarljós lögreglubifreiðarinnar voru tendruð og ökumanni gefið merki um að stöðva bifreiðina en það gerði hann ekki. Bifreiðinni hafi þá verið veitt eftirför norður Skagfirðingabraut, austur Skólastíg og suður Freyjugötu þar sem ökumaður stöðvaði bifreiðina og kom út úr bifreiðinni ásamt farþega.

Maðurinn neitaði staðfastlega sök bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum. Hann hefur haldið því fram að kunningi hans hafi ekið bifreiðinni. Ekki var tekin lögregluskýrsla af félaganum vegna rannsóknar málsins. Ætla má að það hefði verið rétt á rannsóknarstigi að taka slíka skýrslu þar sem hinn ákærði hélt því strax í upphafi fram að félaginn hefði ekið bifreiðinni, að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Taldi dómarinn hins vegar að framburður þriggja lögreglumanna í málinu þar sem þeir eru fullvissir um að hinn ákærði hafi ekið bifreiðinni sé lögfull sönnun um sekt hins ákærða og því sé hann sakfelldur fyrir ölvunarakstur.

Maðurinn hefur tvisvar áður sætt refsingu hér á landi. Hinn 25. október 2006 var hann sakfelldur fyrir ölvun við akstur og sviptur ökurétti í tvö ár. Hinn 31. maí 2007 var hann aftur sakfelldur fyrir ölvunarakstur og einnig fyrir að aka sviptur ökurétti.

„Með broti því sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur hann því öðru sinni gerst sekur um ítrekaðan ölvunarakstur. Í samræmi við áralanga dómvenju ber að dæma ákærða í 30 daga fangelsi. Þá ber einnig að svipta hann ökurétti ævilangt frá 25. október 2011 að telja," að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka