Ekki allir sammála um afnám seðilgjalda

„Á bak við seðilgjöldin er 20 til 30 ára fordæmi. Það er þetta fordæmi sem viðskiptaráðherra vill afnema með tilmælum sínum frá því í febrúar á þessu ári. Ef seðilgjöld verða lögð af leggst kostnaður á vöruna sjálfa,“ segir Alexander Þórisson, framkvæmdastjóri Alskila. Í frétt 24 stunda í gær sagði ráðherra að lög væru í gildi um rukkun seðilgjalda.

„Í fyrsta lagi þá eru það fyrirtæki sem hafa atvinnu af því að innheimta. Mörg fyrirtæki sjá um þetta sjálf en önnur kjósa að láta aðra sjá um innheimtuna fyrir sig.

Þetta er fyrirkomulag sem hefur verið notað síðastliðin ár og er mjög hentugt fyrir alla aðila.“

Alexander segir að eigi innheimtan að fara í gegnum Reiknistofu bankanna svo hún geti birst samstundis í heimabönkum þurfi að borga fyrir hana. „Það kostar að setja þetta í heimabankana líka,“ segir hann.

„Ég er sammála því að seðilgjald á ekki að vera misjafnt eftir því hvar viðskipti eru en ef það er í samræmi við kostnaðinn sem er á bak við stofnun kröfu þá finnst mér þetta eðlilegast. Þá er það sá aðili sem velur reikningsviðskipti sem á að borga kostnað af þeim,“ segir hann. „Það sem mér finnst rangt er að vöruverð mun hækka verði gjöldin afnumin þannig að þetta mun fara út í verðlagið.

Þetta eru tilmæli og það á sér ekki stoð í lögum eins og ráðherra sagði. Það sem kom fram hjá ráðherra í viðtalinu í gær er ekki í samræmi við tilmælin frá honum síðan í febrúar né innheimtulög sem samþykkt voru í maí. Það er til sjónarmið sem ég er að lýsa. Ef ráðherra kýs að gera þetta þá verður auðvitað farið eftir þeim lögum. En eins og staðan er í dag eru engin lög til. Hvergi er kveðið á um þetta í reglugerð. Þetta voru bara tilmæli frá honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert