Flugfélag Íslands flýgur til Ilulissat

Frá Ilulissat.
Frá Ilulissat.

Flugfélag Íslands hefur ákveðið að fljúga reglulega til Ilulissat á vesturströnd Grænlands næsta sumar. Mun félagið þá fljúga til allra landshluta Grænlands, þ.e.a.s. Ilulissat á norður Grænlandi, Nuuk á vestur Grænlandi, Narsarsuaq á suður Grænlandi og Kulusuk og Constable Point á austurhluta Grænlands.

Ilulissat er einn helsti ferðamannastaður á Grænlandi en þar er hægt að fylgjast með jöklinum brotna fram í sjóinn. Um 4500 íbúar búa við Diskoflóann og er fjörðurinn á heimsminjalista UNESCO. Flogið verður á DASH 8 frá Keflavík tvisvar í viku í júlí og ágúst.

Jafnframt þessu verður fjölgað ferðum til Nuuk úr þremur í fjórar á viku. Frá Keflavík verður því yfir hásumarið flogið 6 sinnum í viku til vesturstrandar Grænlands.

Flugfélag Íslands segir, að mikil aukning hafi verið meðal fyrirtækja og stofnana að nota Grænland sem áfangastað þegar halda á ýmis konar viðburð, hópefli eða hvataferðir þar sem umhverfið þurfi að vera óvenjulegt eða einstakt. Einnig hefur verið mikil aukning ferðamanna og því séu mikil tækifæri í flugi til Grænlands. 

Þessi nýji áfangastaður ásamt öðrum áfangastöðum Flugfélags Íslands verður  kynntur á Vestnorden sem er árleg ferðakaupstefna sem Ferðamálastofa og Ferðmálaráð Grænlands og Ferðamálaráð Færeyja hafa staðið að, en þarna koma ferðaheildsalar hvaðanæva að úr heiminum til að kynna sér hvað er í boði. Vestnorden ferðakaupstefnan mun verða haldin í nýju Vodafone höllinni mánudaginn 15. september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert