Á Alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna 10. september beindist athyglin sérstaklega að því sem verða má til að draga úr sjálfsvígum. Að sögn Salbjargar Bjarnadóttur verkefnastjóra hjá Landlækni er þjálfun fagfólks í að greina áhættumerki hjá fólki í tæka tíð mikilvægt áhersluatriði en auk þess þarf að hlúa með réttum hætti að aðstandendum þeirra sem falla fyrir eigin hendi.
Í tilefni Alþjóðadags sjálfsvígsforvarnar í gær var kertum fleytt á Reykjavíkurtjörn til minningar um þá sem látist hafa í sjálfsvígum og kyrrðarstund haldin í Dómkirkjunni í gærkvöldi.
Salbjörg Bjarnadóttir segir landlæknisembættið hafa fara í samstarf við aðrar þjóðir á sviði forvarna, í kjölfar þess að sjálfsvígsalda reið yfir Ísland með því að 51 einstaklingur lést með þeim hætti. Einn af hverjum fimm var 19 ára eða yngri.
„Eitt sjálfsvíg hefur gífurleg áhrif og það má gera ráð fyrir að á hverju ári þjáist allt að 2.500 manns vegna sjálfsvíga innan fjölskyldna. Foreldrar, systkini, börn og makar hins látna eiga verulega á hættu á að lenda í erfiðleikum með að fóta sig á nýjan leik og þurfa því utanaðkomandi aðstoð fagfólks.“
Sjálfsvígsforvarnir beinast ekki hvað síst að skólakerfinu með því að starfsfólk skólanna sé vakandi fyrir fyrstu einkennum barna og ungmenna sem gætu skapað hættu á sjálfsvígum.