Snúa þarf dæminu við þannig að ódýrara sé fyrir fólk að flokka sorp en að henda því öllu í sömu svörtu tunnuna. Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, þegar hún flutti Alþingi skýrslu um umhverfismál í dag.
Þórunn sagði þær raddir heyrast nú á tímum efnahagslægðar að slaka ætti á kröfum um umhverfisvernd til að flýta uppbyggingu á sviði þungaiðnaðar og orkunýtingar. Þvert á móti, sagði Þórunn, að færa mætti rök fyrir því að aldrei væri eins mikilvægt að gaumgæfa vel allar stórar ákvarðanir.
Á Íslandi væri hvað mest hagsæld í heiminum og væri ekki hægt að vinna að sjálfbæri þróun hér á landi væri það hvergi hægt. Þá sagði Þórunn vel vera hægt að byggja upp blómlegt samfélag án þess að fórna einstökum náttúruperlum, sem vart finnast í öðrum ríkjum V-Evrópu.