Kynbundinn launamunur eykst

Niðurstöður launakönnunar SFR - stéttafélags í almannaþágu, sýna að kynbundinn launamunur er viðvarandi og vaxandi vandamál hjá hinu opinbera. Munurinn hefur aukist um 3% á milli ára hjá SFR, en stendur í stað hjá félagsmönnum VR.

Þannig hafa meðalheildarlaun karla í fullu starfi sem eru félagar í SFR verið 376 þúsund í ár, en meðalheildarlaun kvenna 274 þúsund krónur. Konur fá því að meðaltali 27% lægri heildarlaun en karlar.

Í heildalaunum koma þó fram launaþættir sem skýra að hluta hærri heildarlaun karla, en þegar tekið hefur verið tillit til allra þátta, s.s. aldurs, vinnutíma, eftirvinnu o.s.frv. stendur eftir að óútskýrður launamunur kynjanna er 17,2%, sem er veruleg aukning frá síðasta ári þegar munurinn mældist 14,3%. 

Vefsíða SFR

Meðal félagsmanna VR er hinsvegar ekki marktæk breyting á kynbundnum launamun, hann mælist nú 12,3% en var 11,6% í fyrra.Í skýrslu VR er vakin athygli á þessum mun og þeirri spurningu velt upp hvort markaðslaunakerfi eins og tíðkast almennt á hinum almenna vinnumarkaði henti konum betur en miðstýrt launakerfi, eins og er við lýði hjá ríkisfyrirtækjum.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir að félagið líti þetta mjög alvarlegum augum. „Þessar tölur komu verulega á óvart og við erum gagnrýnin á ríkisstjórnina vegna þessar niðurstaðna. Við settum þetta á oddinn þegar við vorum að gera kjarasamninginn í maí og þá voru fögur fyrirheit sem varð ekkert úr. Ríkið kom ekki með neina peninga inn í þennan málaflokk sem er það sem þarf ef árangur á að nást við að leiðrétta þetta.“

„Ef þú berð saman okkur og VR sést að kynbundinn launamunur er miklu meiri hjá okkur en á almennum markaði. Það er nú nokkuð skrýtið því launakerfi ríkisins ætti að vera miklu gagnsærra heldur en launakerfið á hinum almenna markaði,“ segir Árni. „Ríkið hefur alla möguleika til að taka á þessu, en gerir það ekki.“

Niðurstöður launakannananna má skoða nánar á heimasíðum Vr og SFR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka