Mátti ekki framlengja að áskrifanda forspurðum

Nokkur þeirra tímarita, sem Birtíngur gefur út.
Nokkur þeirra tímarita, sem Birtíngur gefur út.

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest þá niðurstöðu Neytendastofu, að Birtíngur útgáfufélag hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins með því að framlengja tímabundna áskrift einstaklings að tímariti án þess að bera það undir áskrifandann.

Um er að ræða konu, sem keypti 12 mánaða áskrift að tímaritinu Veggfóðri  hjá Birtíngi og greiddi áskriftina fyrirfram vegna ársins 2007. Síðar á samningstímabilinu var tímaritið  sameinað tímaritinu Húsum og híbýlum, sem Birtíngur gefur einnig út.

Konan segist hafa orðið þess áskynja, eftir að árinu lauk, að greiðslur fyrir áskrift að Húsum og híbýlum voru skuldfærðar á greiðslukort hennar að henni forspurðri. Hún hefði óskað skýringa á því og fengið þau svör að áskrift hennar hefði haldið áfram eftir að hinum tímabundna samningi lauk. Væri það hluti af almennum skilmálum við áskriftarsölu félagsins að tímabundin áskrift breyttist í ótímabundna og þyrftu áskrifendur að segja áskriftinni upp sérstaklega vildu þeir ekki fá blaðið sent áfram í áskrift. 

Konan sætti sig ekki við þetta og kærði til Neytendastofu, sem taldi ósannað  að við gerð hins tímabundna áskriftarsamnings hafi verið sett það skilyrði, að segja þyrfti áskriftinni upp að loknum umsömdum binditíma. Því hefði Birtíngur brotið gegn umræddum lagaákvæðum með því að gefa fyrirmæli um úttekt greiðslna af greiðslukorti áskrifandans sem nam andvirði þriggja tölublaða Húss og Híbýla eftir að umsömdu áskriftartímabili lauk. 

Birtíngur áfrýjaði til úrskurðarnefndarinnar sem hefur nú staðfest niðurstöðu Neytendastofu. 

Úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert