Frá og með 1. október verður starfræktur grunnskóli undir fána Hjallastefnunnar á Laufásborg við Laufásveg, sá fyrsti sinnar tegundar í Reykjavík. Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf., og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis.
Skv. yfirlýsingunni skuldbindur borgin sig líka til þess að útvega skólanum hentugt skólahúsnæði frá og með skólaárinu 2009-2010. Til að leggja áherslu á þetta afhentu starfsmenn Laufásborgar Hönnu Birnu byggingarefni í nýja skólann – áritaða spýtu með nöfnum barnanna sem hefja nám í sex ára bekk við Laufásborg í október.