Ónýttar nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu eru að minnsta kosti um 2.400 talsins. Séu teknar með í reikninginn úthlutaðar lóðir og byggingar, sem skammt eru á veg komnar, eru ónýttar íbúðir a.m.k. 5.900 talsins, að sögn Ara Skúlasonar, forstöðumanns greininga á fyrirtækjasviði Landsbankans. Segir hann að við eðlilegar aðstæður tæki það um tvö ár að selja þennan fjölda íbúða og því sé ljóst að framboð á íbúðamarkaði sé umtalsvert meira en eftirspurn og hafi verið um nokkurt skeið.
Ari og hans fólk hefur undanfarin ár safnað saman og unnið mikið magn upplýsinga um stöðu fasteignamarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðu þess að farið var í þessa vinnu segir Ari þá að opinberum upplýsingum hafi verið um margt ábótavant.
Markaðsvirði áðurnefndra 2.400 íbúða segir Ari geta verið um 70 milljarðar króna og að fjárbinding framkvæmdaaðila geti numið um 50 milljörðum. „Er þá ekki tekinn með hugsanlegur lóðakostnaður eða kostnaður sveitarfélaga við vega- og lagnagerð,“ segir Ari.