Andanefjum fjölgar á Pollinum

Andarnefjurnar fjórar á Pollinum í dag.
Andarnefjurnar fjórar á Pollinum í dag. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Tvær andarnefjur hafa bæst í hóp andanefjanna á Pollinum á Akureyri og eru nú fjögur dýr þar. Samkvæmt upplýsingum Hreiðars Þórs Valtýssonar fiskifræðings sáust andanefjurnar tvær  fyrst er farið var með hóp nemenda úr sjötta bekk grunnskóla í sjóferð í morgun. Síðan þá hafa þær fært sig nær landi og sjást þær nú vel frá Akureyri.

Hreiðar sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að ótal tilgátur hafi verið settar fram um það hvers vegna andanefjurnar sæki á þessar slóðir en að engin þeirra hafi verið sannreynd enn sem komið er.

„Andanefjur eru úthafshvalir og því er ljóst að þetta er ekki þeirra náttúrulega umhverfi,” sagði hann. „Við höfum sett fram margar tilgátur um ástæðuna fyrir því að þær sækja á þessar slóðir núna en þar sem þær tilgátur hafa ekki verið sannreyndar vitum við í raun ekkert um það.”

Hreiðar sagði að í fyrstu hafi verið talið að fyrri andanefjurnar tvær hefðu villst og að þær kæmust einfaldlega ekki aftur til hafs. Þá hafi verið talið líklegast að þær myndu veslast upp og deyja. Þær virðist hins vegar vera hinar hressustu og það grafi undan þeirri tilgátu.

Hann sagði jafnframt að koma nýju andanefjanna á Pollinn veiki tilgátur um að um tilfallandi atvik sé að ræða en sú tilgáta hafði verið sett fram um komu fyrri dýranna tveggja að kálfurinn hafi verið veikur og að móðirin hafi því leitað á afvikinn stað með hann. 

Eftir standi hins vegar vangaveltur um það hvort dýrin séu að elta fæðu eða á flóta undan háhyrningum. Óvenjustór síld hefur veiðst á Pollinum að undanförnu auk þess sem þar er ufsi og er talið hugsanlegt að hvalirnir séu að elta fæðuna þangað. 

Hreiðar sagði einnig hugsanlegt að hvalirnir hafi leitað inn á Pollinn á flótta undan háhyrningum og vísaði til árásar háhyrninga á hrefnu á Skjálfanda í sumar því til stuðnings.

„Það hafa ekki verið háhyrningar þarna úti fyrir að staðaldri en það er þó ekkert óvenjulegt að þeirra verði vart á þessum slóðum,” sagði hann. „Háhyrningar eru hins vegar mjög misjafnir. Til eru hópar háhyrninga sem nærast nær eingöngu á fiski. Síðan eru aðrir hópar sem nærast á selum og hvölum og þeir geta verið mjög árásargjarnir. Það má vel hugsa sér að slíkur hópur sé þarna á ferð núna og að andanefjurnar hafi hrakist inn á Pollinn á flótta undan þeim."

Hreiðar sagði það einnig vekja athygli að ellefu andanefjur hafi strandað á Íslandi það sem af er þessu ári en að meðaltali strandi tvö dýr hér á ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert