Eina Hollywoodstjarna okkar Íslendinga, Anita Briem, íhugar að reyna fyrir sér í tónlistinni. Hún á nú ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana, enda dóttir Gunnlaugs Briem trommara Mezzoforte er tók við Íslensku tónlistarverðlaununum ár eftir ár sem besti trommari landsins. Það má því ætla að stúlkan hafi fengið mikið tónlistaruppeldi á heimili sínu, bæði hér heima og í London þar sem pabbi hennar starfaði um hríð sem atvinnu-hljóðfæraleikari.
„Ég hef spilað tónlist alla mína ævi,“ segir Anita. „Ég lærði á flautur þegar ég var yngri og nýlega tók ég upp gítarinn. Ég er búin að vera að syngja og spila aðeins.“
Þegar hún er spurð nánar út í þetta áhugamál sitt viðurkennir hún að vera byrjuð að semja og syngja sín eigin lög og áhuginn á að leyfa því að blómstra einhvern daginn leynir sér ekki. „Já, ég er aðeins byrjuð og það er mjög gaman að vinna í því. En ég segi kannski betur frá því seinna þegar það er lengra komið.“
Anita fylgist eins vel með íslenskri tónlist og hún getur fyrir utan landsteinana og hafa erlendir blaðamenn oft rætt við hana. Hún segir blaðamenn spyrja mikið um Sigur Rós og Björk. „Fólk erlendis dáist mikið að tónlistarfólkinu okkar sem er mjög áberandi úti í heimi. Ég er ákaflega stolt af því. Við erum með alveg ótrúlega ríkt tónlistarlíf.“
Stúlkan gaf engar vísbendingar um það hvort eða hvenær hún hygðist fara í hljóðver eða plötuútgáfu.