„Ég sagði upp skriflega í nóvember 2007 og hætti störfum hjá félaginu í febrúar á þessu ári. Félagið sjálft ber svo ábyrgð á því hvenær gengið var frá kaupum og sölum á hlutum mínum í félaginu. Ég jós ekki fúkyrðum yfir stjórnendur félagsins, það geta þeir staðfest sjálfir,“ segir Baldur Guðnason, fyrrverandi forstjóri Eimskipafélags Íslands (Eimskips).
Greint var frá því í 24 stundum í gær að stjórnarmenn og stjórnendur innan félagsins hefðu þurft að sitja undir „fúkyrðum“ Baldurs á fundum mánuði áður en hann hætti störfum hjá félaginu. Baldur segir þetta ekki rétt. Hann hafi átt gott samstarf við stjórnendur og stjórnarmenn félagsins, þó menn hafi ekki alltaf verið sammála.
Baldur segist hafa gert stjórn og hluthöfum grein fyrir sinni sýn á félagið um leið og hann tók við. „Í mars 2007, þegar Avion Group var sameinað Eimskip, þá tók ég við því félagi á ákveðnum forsendum. Þær voru meðal annars að flugreksturinn yrði seldur. Það var alltaf mitt sjónarmið. Svo gerist það að flugreksturinn er ekki að standa undir væntingum. Þá var orðið ljóst að þetta væri íþyngjandi fyrir félagið. Á stjórnarfundi í lok október ítreka ég það að nauðsynlegt sé að auka hlutafé í félaginu. Í nóvember tek ég svo ákvörðun um að hætta. Í framhaldi biðja hluthafar og stjórn félagsins mig um að vera áfram og klára ákveðin mál. Í febrúar hætti ég svo í fullri sátt við stjórn. Það er ekkert athugavert við minn viðskilnað hjá félaginu.“
„Sú stefnumörkun sem ég og mínir samstarfsmenn unnum eftir var samþykkt af hluthöfum og stjórn félagsins,“ segir Baldur. „Menn gerðu sér alveg grein fyrir því að það þyrfti á endanum að fjármagna fjárfestingar, sem voru hluti af þessari stefnu, með sölu eigna og með hlutafjáraukningu.“
Baldur segir samstarf sitt við Magnús Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformann, hafa verið gott. „Ég ætla ekki að tjá mig um hvernig stjórnarfundir fóru fram en þrátt fyrir að menn hafi ekki verið sammála um alla hluti þá var starfið faglegt og samskipti eðlileg [...] Ég kem úr flutningahluta félagsins, sem sameinaðist flugrekstrareiningum. Mín afstaða til flugrekstrarins var alveg skýr; ég taldi nauðsynlegt að selja hann og aðskilja frá flutningahlutanum. Það lá alveg fyrir,“ segir Baldur.
Hann segist hafa skilið sáttur við félagið. „Ég veit ekki til þess að ég eigi mér óvildarmenn vegna starfa minna hjá Eimskip. Ég og mínir samstarfsmenn hjá félaginu héldum stjórnarmönnum vel upplýstum um allt sem átti sér stað.“