Dvalarleyfi á fölskum forsendum

„Við höfðum rökstuddan grun um að hér væri fólk að reyna að fá dvalarleyfi á fölskum forsendum,“ sagði Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

„Markmið húsleitanna var að leita persónuskilríkja og annarra gagna til að bera kennsl á hælisleitendur.“

Útlendingastofnun, lögreglan í Reykjavík og á Suðurnesjum og ríkislögreglustjóri undirbjuggu og hrintu af stað leit hjá fólki sem leitað hefur hælis hér á landi á fölskum forsendum. Leitað var á sjö dvalarstöðum og gögn gerð upptæk.

„Rökstuddur grunur er ástæða þess að við fórum út í þessar aðgerðir. Húsleitirnar voru árangursríkar og við fundum mikið af gögnum.“

Jóhann segir að Útlendingastofnun fái til sín mörg mál sem vinna þarf úr. „Þessu fólki verður vísað úr landi því það er enginn grundvöllur fyrir hælisleit gefi þau rangar upplýsingar um sig. Það er algengt í þessum heimi að fólk reyni að villa á sér heimildir og feli persónuskilríki í von um að eignast betra líf. Ef viðkomandi er ekki flóttamaður þá nýtur hann ekki verndar samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna,“ segir hann.

Málið í rannsókn

„Útlendingastofnun og lögreglan munu nú fara af stað með að vinna úr þessum gögnum. Útlendingastofnun mun afgreiða hælisleitendurna og skoða þeirra mál á meðan mun lögreglan kanna hvort útlendingalög eða einhver önnur lög hafi verið brotin. Við munum bara vinna áfram með þessi gögn sem við gerðum upptæk í dag,“ segir hann.

Lögreglan lagði hald á vegabréf, persónuskilríki, reiðufé í ýmsum gjaldmiðli að andvirði rúmlega 1,6 milljóna króna. „Eftir því sem ég best veit er enginn grunur um mansal í þessu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert