Á milli 20 og 30 mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan lögreglustöðina í Keflavík í dag til að mótmæla hinum umfangsmiklu húsleitaraðgerðum hjá hælisleitendum í gær á Reykjanesi. Flestir voru mótmælendur hælisleitendur auk nokkurra Íslendinga. Mótmælin fóru friðsamlega fram og var skilaboðum komið á framfæri með því að nota gjallarhorn. Enginn kom af hálfu lögreglunnar út á stétt til að ræða við mótmælendur.
Meðal þess sem mótmælendur voru mjög ósáttir við var haldlagning fjármuna á dvalarstöðum þeirra, auk þess sem þeir voru ekki sáttir við að lögreglan skyldi mæta með fíkniefnahund í aðgerðirnar. Ekkert af fíkniefnum fannst. Þá eru mótmælendur ósáttir við að þeir séu látnir líta út eins og óvinir íslenska ríkisins eða hryðjuverkamenn og óttast þeir stimplun samfélagsins eftir aðgerðirnar í gær.
„Nú verður bent á okkur ef við förum í göngutúr um götur Keflavíkur,“ segir Farzad Rahmanian einn hælisleitanda í samtali við mbl.is