Jökulsá í Fljótsdal virkjuð

Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson

Byrjað var í gær að safna vatni í inntakslón Kárahnjúkavirkjunar við Ufsastíflu. Þaðan verður Jökulsá í Fljótsdal leidd um Jökulsárgöng í stóru aðrennslisgöngin sem liggja úr Hálslóni í Fljótsdalsstöð.

Fljótsdalsstöð hefur til þessa eingöngu verið rekin með vatni úr Hálslóni sem Jökulsá á Brú myndar. Með því að lokið er við Ufsastíflu og Jökulsárgöng og byrjað að safna vatni í inntakslónið er Jökulsá í Fljótsdal virkjuð. Hún og veiturnar Fljótsdalsmegin gefa um fjórðung af vatni Fljótsdalsstöðvar.

Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi Kárahnjúkavirkjunar, segir mikilvægt að mannvirkin séu tilbúin og rekstrarhæf. Lítið rennsli er í Jökulsá yfir veturinn en hlýindakaflar verða notaðir til að framleiða rafmagn úr ánni til að spara vatnið í Hálslóni. Mannvirkin nýtast að fullu í vor, þegar aftur eykst í ánni.

Skrúfað var fyrir Jökulsá í klukkustund í gærmorgun, þegar botnlokum Ufsastíflu var rennt niður. Þá byrjaði inntakslónið að myndast. Mikið er í ánni þessa dagana og þar sem ætlunin er að láta lónið fyllast á nokkrum dögum, í öryggisskyni, var fljótlega farið að veita meginhluta Jökulsár aftur út í farveg sinn. Sigurður Arnalds segir að byrjað verði að hleypa vatni í Jökulsárgöng í næstu viku, til að prófa þau.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert