Lækjargata 2 tekin niður

Húsin við Lækjargötu 2 og Austurstræti 22 eyðilögðust í eldinum.
Húsin við Lækjargötu 2 og Austurstræti 22 eyðilögðust í eldinum.

Borgaryfirvöld hafa veitt leyfi til þess að taka niður húsið Lækjargötu 2, vegna fyrirhugaðrar endurbyggingar á húsinu. Minjavernd hefur tekið að sér að stjórna verkefninu.

Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, segir að nú sé verið að fara yfir stöðuna og ákveða í smærri atriðum hvernig staðið verði að verkinu. Brátt ljúki fornleifarannsóknum á næstu lóð að Austurstræti 22 og þá verði hægt að byrja á verkinu.

Fyrsta skrefið verði að fara inn í Lækjargötu 2 og hreinsa allt út úr húsinu en ekki hefur verið hreyft þar við neinu síðan miðbæjarbruninn mikli varð 18. apríl 2007. Að því loknu verði húsið mælt hátt og lágt og ástand þess metið.

Að sögn Þorsteins er húsið í raun samsafn 5-6 bygginga, þótt það sé í einni heild í dag. Ekki sé ætlunin að rífa húsið niður í frumeindir. Hugmyndin sé sú að reyna að ná sem mestu af elsta hluta hússins og flytja hann á heppilegan stað til viðgerða og endurbóta. Hann verði svo fluttur á sinn stað að viðgerð lokinni.

Þá hafa borgaryfirvöld einnig gefið leyfi til þess að fjarlægja í heilu lagi hlaðið eldstæði, sem er það eina sem eftir stóð af húsinu nr. 22 við Austurstræti, í kjölfar brunans mikla. Að sögn Þorsteins er þetta merkilegt mannvirki, enda elsta eldstæðið sem vitað er um innan borgarmarkanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert