Velta í dagvöruverslun dróst saman um 2% á föstu verðlagi, en þá er miðað við þá krónutölu sem er í gangi hvert sinn sem mælt er óháð öllum öðrum áhrifum, í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra. Á breytilegu verðlagi, en þá á sér stað leiðrétting á verðlaginu með því að taka tillit til verðbreytinga sem hafa orðið á tímabilinu, jókst velta dagvöruverslunar hins vegar um 18,2% miðað við sama mánuð í fyrra. Þannig er ljóst að neysla minnkar þó neytendur verji mun meira matarinnkaupa nú en áður, að því er segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Dagvara hækkaði um 20,5%
Verð á dagvöru hækkaði um 20,5% á einu ári, frá ágúst í fyrra til ágúst á þessu ári. Sama þróun á sér stað í öðrum tegunda verslunar, verð heldur áfram að hækka og samdráttur er í veltu á föstu verðlagi.
Áfengissala minnkar um 4,5%
Sala á áfengi minnkaði um 4,5% í ágúst miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi en jókst um 5.4% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 10,3% í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.
Einnig samdráttur í fataverslun
Fataverslun dróst einnig saman á föstu verðlagi milli ára en jókst í krónum talið. Velta fataverslunar minnkaði um 8,7% á föstu verðlagi í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 7,6% á breytilegu verðlagi á sama tímabili.
„Áhrif þess að súmarútsölum á fötum er lokið koma greinilega fram í hærra verði og um leið minnkandi veltu. Verð á fötum hækkaði um 4,6% í ágúst miðað við mánuðinn á undan. Í ágúst minnkaði veltan um 8,8% á föstu verðlagi og um 4,6% á breytilegu verðlagi miðað við næstliðinn mánuð. Verð á fötum hækkaði um 17,9% á síðustu 12 mánuðum," að því er segir í tilkynningu.
Skósala dregst saman um 14,7%
Samdráttur varð í skóverslun í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra um 14,7% á föstu verðlagi og 4,7% á breytilegu verðlagi. Skóverslun hefur verið minni í hverjum mánuði allt frá því í maí síðastliðnum miðað við sömu mánuði í fyrra á föstu verðlagi og hefur bilið aukist hvern mánuð. Velta í skóverslun í ágúst dróst saman um 9,2% frá mánuðinum á undan á föstu verðlagi. Verð á skóm hefur hækkað um 11,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Verð á húsgögnum hækkaði um 12,7%
Í ágúst minnkaði velta í húsgagnaverslun um 8,0% á föstu verðlagi miðað við ágúst í fyrra og jókst um 3,7% á breytilegu verðlagi. Eftir nokkra lægð í húsgagnaverslun undanfarna mánuði jókst hún aftur í ágúst. Nú er liðið eitt ár síðan Rannsóknasetur verslunarinnar hóf að mæla veltuvísitölu húsgagnaverslana og því í fyrsta sinn sem hægt er að gera samanburð á milli ára. Verð á húsgögnum hækkaði um 12,7% á síðastliðnum 12 mánuðum.