Nýbakaðar mæður finna fyrir álaginu

„Þetta er mjög mikil skerðing á þjónustu við fæðandi konur, ég get ímyndað mér að þetta nálgist það að fara undir öryggismörk,“ segir Helga Björg Ragnarsdóttir sem var að eiga sitt þriðja barn í gær. „Ég finn mjög vel fyrir álaginu hérna á fæðingarganginum,“ segir hún en tekur fram að starfsfólkið standi sig mjög vel.

„Þetta hefur þannig áhrif að ég verð bara að fara heim nokkrum klukkustundum eftir fæðingu,“ segir hún en bætir við að hún hafi áður farið í Hreiðrið en nú sé það lokað vegna verkfalls ljósmæðra. „Í Hreiðrinu gat fjölskyldan verið saman en hér er ég ein með barnið, mér finnst það verra,“ segir Helga og bætir við að einkennilegt sé að ríkið skuli ekki bregðast við verkföllunum. „Ástandið er alvarlegt en uppsagnir ljósmæðra taka gildi um næstu mánaðamót ef ekki semst, þá er verið að gera stéttina að athlægi ef ríkisstjórnin ætlar að hunsa þessar sjálfsögðu og sanngjörnu launaleiðréttingarkröfur,“ segir Helga.

Erfitt ástand er á fæðingardeild Landspítalans þar sem fæðingar hafa verið óvenjumargar síðasta sólarhring. Bæði fæðingargangur og sængurkvennadeild fylltust í gærmorgun og var rúmum bætt við á sængurlegudeild en auk þessa var Hreiðrið opnað fyrir fæðandi konur. Um tíu börn hafa fæðst á Landspítalanum frá því verkfall ljósmæðra hófst en um átta konur bíða fæðingar.

Guðfinna Sveinbjörnsdóttir deildarstjóri á sængurkvennadeild Landspítalans segir álagið mikið. „Við nýtum rýmið til hins ýtrasta og höfum þrjár konur inni á stofum þar sem áður voru tvær til að reyna að hafa það huggulegra fyrir mæður og börn,“ segir hún og bætir við að von sé á fleiri börnum. „Við neyddumst til að setja þrjár mæður á ganginn í gærmorgun en álagið er mikið og Hreiðrið er lokað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert