Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að ávinningur af því að efna til þingfunda í september liggi ekki í augum uppi. Nokkur mál hafi verið afgreidd en þau hefði flest mátt afgreiða með fleiri þingdögum sl. vor. Hafi hins vegar verið efnt til fundanna til að svara gagnrýni á langt sumarleyfi þingmanna sé það markmið í sjálfu sér.
Fyrsta septemberþinginu lauk í dag. Fram kom þegar fundum Alþingis var frestað, að 9 frumvörp hefðu orðið að lögum þann hálfa mánuð sem það starfaði.
Björn spyr, hvort ekki sé skynsamlegt að skipta þinginu í þrjár fundalotur á ári með hléum á milli. Þá segir hann, að það gefi ekki rétta mynd af því hvernig þing starfa almennt, að láta eins og þingmenn hafi óvenjulega lítil áhrif hér á landi, af því að lagafrumvörp frá þeim eða ályktanir séu ekki afgreiddar.
„Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þingmenn hér geti haft og hafi mikil áhrif á löggjöfina og ræðst það af öflugu starfi nefnda og þekkingar, sem þingmenn afla sér með setu í þeim," segir Björn.