Ekki er ljóst hvort hagræn rannsókn á samfélagslegum kostnaði af notkun nagladekkja í Reykjavík liggur fyrir áður en nagladekkjatíminn rennur í garð í haust. Úttektin hefur tafist af ýmsum ástæðum.
Fulltrúar minnihlutaflokkanna í uimhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur spurðust fyrir um úttekina nýlega. Í skriflegri fyrirspurn segja þeir, að frá því Sjálfstæðisflokkur myndaði meirihluta með Ólafi F Magnússyni hafi fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu ítrekað spurt hvað líði vinnu við rannsóknin en fengið dræm svör.
Samþykkt var að ráðast í þessa rannsókn þegar Tjarnarkvartettinn svonefndi var í meirihluta í borgarstjórn svo hægt væri að sjá beinan og óbeinan kostnað af völdum nagladekkja en nagladekkjanotkun stærsti einstaki þátturinn í svifryksmengun í borginni.
Í svari, sem lagt var fram á fundi umhverfis- og samgönguráðs í vikunni segir, að í þessari viku verði framhald á fundum með Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um verkefnið.
Verkefnið hafi tafist fyrst vegna anna við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2008 og gerð þriggja ára áætlunar, flutninga sviðsins í nýtt húsnæði og þess, að Hagfræðistofnun var bundin við önnur verkefni. Málið var tekið upp að nýju á vordögum og óskaði Hagfræðistofnun þá eftir því, að vinnan hæfist að loknum sumarleyfum í lok ágúst.
Þráðurinn var tekinn upp að nýju í lok ágúst og verður vinna Hagfræðistofnunar og hugsanlega fleiri aðila þá kortlögð. Í svarinu segir, að þegar þessu sé lokið verði hægt að segja fyrir um verklok. Því sé ekki hægt að segja nú hvort úttektin verði tilbúin áður en tími nagladekkja rennur í garð í haust.