Fimmtán ára piltur sem stöðvaður var við akstur í Laugardal aðfaranótt laugardags reyndist hafa tekið bílinn á heimili sínu traustataki og farið á rúntinn. Til að bæta gráu ofan á svart var stráksi brotlegur við útivistarreglur, og hefði átt að vera kominn í háttinn.
Frá þessu greinir á Lögregluvefnum.
Þar segir, að um helgina hafi sextán réttindalausir ökumenn verið stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu. Þrír höfðu aldrei öðlast þau, en hinir verið sviptir þeim.
„Þess má geta að þeir sem gerast sekir um akstur bifreiðar eða bifhjóls sviptir ökurétti eiga 60 þúsund króna sekt yfir höfði sér ef um fyrsta brot er að ræða. Ef brotið er af sér með þessum hætti í annað sinn er sektin 100 þúsund krónur,“ segir lögreglan.