Segir endurgreiðslukröfu Impregilo óljósa

Impregilon var aðalverktaki við Kárahnjúkavirkjun.
Impregilon var aðalverktaki við Kárahnjúkavirkjun. mbl.is/Sverrir

Rökstuðningur Árna Mathiesen fjármálaráðherra í svörum hans við óundirbúinni fyrirspurn vegna skuldar íslenska ríkisins við Impregilo stangast á við úrskurði dómstóla. Endurgreiðslukrafa Impregilo er í dag hátt í 1,8 milljarðar króna.

Í svörum Árna við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna, um skuld íslenska ríkisins við ítalska verktakafyrirtækið Impregilo kom fram að umrædd skuld kunni „að vera óveruleg og lítil sem engin“. Árni rökstuddi það meðal annars með því að segja að endurgreiðslukrafa Impregilo væri óljós. Héraðsdómur hafnaði hins vegar frávísunarkröfu ríkisins í málinu í lok júní, sem var byggð á því að kröfur Impregilo væru óljósar og vanreifaðar.

Forsaga málsins er sú að þegar Impregilo hóf að byggja Kárahnjúkastíflu var óljóst hvort Impregilo bæri að greiða staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna tveggja starfsmannaleigna, eða hvort starfsmannaleigurnar sjálfar ættu að gera slíkt. Yfirskattanefnd úrskurðaði að Impregilo ætti að greiða staðgreiðsluna og til að fyrirtækið gæti haldið starfsemi sinni hérlendis áfram var ákveðið á fundi með ríkisskattstjóra 17. maí 2005 að greiða staðgreiðsluna líkt og Impregilo væri launagreiðandinn. Það var þó gert með þeim fyrirvara að Impregilo myndi leita réttar síns fyrir dómstólum og gera kröfu um endurgreiðslu ef úrskurðað yrði fyrirtækinu í hag. Hæstiréttur gerði það 20. september í fyrra þegar hann felldi ákvörðun yfirskattanefndar úr gildi.

Endurgreiðslukrafan byggir bæði á þeim skattgreiðslum sem áætlaðar voru á Impregilo fyrir ákvörðun yfirskattanefndar árið 2005 og þeirri staðgreiðslu skatta sem fyrirtækið innti af hendi í kjölfar þeirrar ákvörðunar. Samanlagt var hún orðin um einn og hálfur milljarður króna í janúar síðastliðnum þegar málið var þingfest í héraðsdómi. Lögbundnir dráttarvextir eru í dag yfir 26 prósent og því hækkar krafan um rúma milljón króna á hverjum degi. Í dag er hún allt að 1,8 milljarðar króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert