Skólabörn til dagmæðra

„Þetta yrði jákvæður vinkill inn í þjónustu við foreldra sem ekki geta nýtt sér frístundaheimilin,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs um þá hugmynd sem hún setti fram að dagforeldrar gætu tekið að sér umönnun þeirra barna sem ekki komast inn á frístundaheimili.

„Þetta er ekki ný hugmynd. Við töluðum um hana líka fyrir ári en þá var annað ástand og biðlistar lengri. Nú þegar eftirspurn er farin að minnka eftir dagforeldrum þá opnast þessi möguleiki. Þetta er hugmynd sem ég velti fram og hún verður sett inn í hugmyndavinnu hjá ÍTR og menntasviðinu.“ Þorbjörg segir hugmyndina vera að eldri börn gætu tekið þátt í að aðstoða við yngri börnin og fengið að upplifa venjulegt heimilishald eftir skóla.

„Það er hægt að nýta þá þjónustu sem er til staðar og fá til dæmis íþróttafélögin eða skátana í samvinnu svo úrræðin geti orðið fleiri en bara frístundaheimili. Allt þetta stjórnast auðvitað af því að til séu heimildir og reglugerðir og lög séu skilgreind. Dagmæður geta ekkert gert fyrr en það er komið á hreint,“ segir hún. „Dagmæður taka vel í þessa hugmynd og eru tilbúnar að skoða þetta. Ég hef heyrt að þær séu að gera fólki greiða með því að passa eldri börn dag og dag en taki ekkert fyrir það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert