Skotarnir drukku stíft á börunum

Skotar á kránni The Highlander.
Skotar á kránni The Highlander. mbl.is/Frikki

Aðdáendur skoska landsliðsins í knattspyrnu, sem atti kappi við landslið Íslands á Laugardalsvelli á miðvikudagskvöld, drukku bjór stíft á meðan þeir voru hér á landi. Rekstraraðilar fjögurra öldurhúsa í miðborg Reykjavíkur segjast sjaldan eða aldrei hafa selt svo mikinn bjór á jafn skömmum tíma.

Dagbjört Hanna Sigdórsdóttir, sem rekur Dubliners, Highlander bar og Celtic Cross, segir Skotana hafa drukkið 8.500 til 9.000 lítra af bjór á þremur dögum. „Ég man ekki eftir annarri eins sölu,“ sagði Dagbjört Hanna.

Á English Pub í Austurstræti voru Skotarnir áberandi meðal gesta. „Ég hélt nú að Skotarnir myndu virða okkur að vettugi þar sem þeir hata Englendinga, en það gerðist ekki,“ segir Arnar Gíslason, veitingamaður á English Pub.

Þessa þrjá daga í kringum landsleikinn, þegar Skotarnir voru mest áberandi, voru í gildi sérstök „Skotatilboð“ á barnum þar sem bjórinn kostaði 500 krónur. Skotarnir keyptu um 2750 lítra af bjór og var innkoman af sölu á tilboðsbjórnum um 2,8 milljónir króna á þremur dögum.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert