Vill enn færri lögregluembætti

Haraldur Johannessen
Haraldur Johannessen mbl.is/ÞÖK

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, hefur viðrað þau sjónarmið að lögreglustjóraembættum verði fækkað enn frekar og að fjárveitingar til lögregluembætta færist til ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í formála að ársskýrslu ríkislögreglustjóra 2007.

Þær hugmyndir sem Haraldur hefur kynnt fela einnig í sér að lögreglustjórar hafi nánast eingöngu með höndum lögregluverkefni en ekki verkefni sýslumanna og tollstjóra. Lögregla verði ein heild undir stjórn ríkislögreglustjóra. „Fjárveitingar færist til embættis ríkislögreglustjóra sem ráðstafar þeim til lögreglustjóra og löggæsluverkefna eftir áherslum á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi verði fjárveitingum og starfskröftum best varið til árangurs,“ segir í formála Haraldar.

Þá segir hann að sérfræðingar um stjórnskipulag lögreglu hafi í þessu sambandi bent á fyrirkomulag lögreglumála á Írlandi og telja að þar megi meðal annars leita fyrirmynda. Þá hafi hann reifað þá skoðun að lögreglustjórar fari ekki með ákæruvald.

Lögregluembættum fækkaði úr 26 í 15 þann 1. janúar 2007.

Í ársskýrslunni kemur fram að rekstrarkostnaður embættisins jókst um 22% frá árinu 2006 og að skýringin sé m.a. fjölgun sérsveitarmanna, breyting á tölvurekstri lögreglu og breyting á útgáfu ökuskírteina og stöðu tengslafulltrúa embættisins hjá Europol. Alls nam rekstrarkostnaður 1,3 milljarði króna. Það sama ár nam rekstrarkostnaður lögreglu höfuðborgarsvæðisins um þremur milljörðum króna.

Heildarakstur ökutækja lögreglu var 5,5 milljónir kílómetra. Kostnaður vegna tjóna nam 9,6 milljónum sem er töluverð hækkun milli ára.

Verkefni í öryggisgæslu voru 21 talsins. Verkefni við vopnuð lögreglustörf voru 53.

Nokkrar annir voru hjá lögreglu vegna opinberra heimsókna og einkaheimsókna erlendra fyrirmenna á árinu 2007, að því er segir í skýrslunni. Umfangsmestar voru heimsóknir forseta Djíbútís og haustfundar NATO-þingsins. Þá annaðist lögreglan á höfuðborgarsvæðinu umferðarfylgd þegar 28 sendiherrar erlendra ríkja afhentu forseta Íslands trúnaðarbréf.

Ársskýrslan

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert