„Eftir að ráðist var á mig hugsaði ég oft um að ég hefði viljað hafa rafbyssu og vera í skot- og hnífheldu vesti. En mér finnst sorglegt að hugsa um það. Að sjá fram á að samfélagið verði þannig.“
Þetta segir lögreglumaður sem varð fyrir fólskulegri árás ölvaðs manns í starfi. Hann og félagar hans segja ofbeldi gegn lögreglunni daglegt brauð. Það kemst sjaldnast í fréttir, flokkast undir smápústra og afleiðingarnar undir minni háttar meiðsli. Þeir fá pústra, eru klóraðir, það er sparkað í þá og margoft kemur fyrir að hrækt sé á þá.
Hótanirnar, sem dynja á lögreglumönnum, reyna á þolrifin. „Ég skal drepa konuna þína og krakkana, helvítið þitt.“ „Ég fer heim til þín og nauðga konunni þinni.“
Kannski er einhverjum alvara
Einn lögreglumaður sagðist hafa kylfuna og piparúðann við rúmstokkinn á nóttunni. „Ég hef svo oft heyrt viðbjóðslegar hótanir í minn garð og ekki síður konunnar minnar. Kannski er einhverjum þeirra alvara?“
Lögreglumenn kunna ekki lausn á vandanum. Þeir segja virðingarleysið mikið, bæði hjá fullorðnum og þeim sem yngri eru. „Við lendum margoft í því að unglingar stofni til einhverra vandræða og þegar við stillum til friðar erum við umkringdir krökkum, sem allir eru með gemsana á lofti. Þeir gera sitt besta til að stofna til vandræða og taka svo myndir og vídeó af öllum viðbrögðum okkar.“