Erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. „Veðrið tók nú sinn þátt í löggæslunni með okkur í miðborginni," sagði varðstjóri lögreglunnar. Félagi manns sem verið var að handtaka réðist á lögreglumenn og þurfti að beita varnarúða til að yfirbuga hann og var hann einnig handtekinn.
Maðurinn sem lögreglan handtók var grunaður um umferðalagabrot og átti atvikið sér stað í Suðurfelli í Reykjavík um klukkan fjögur í nótt.
Umferðaróhöpp
Við Gullinbrú í Breiðholti var fólksbíl ekið á ljósastaur um klukkan fjögur í nótt og var þrennt flutt á slysadeild en bílstjórinn er talinn vera alvarlega slasaður. Allir sem í bílnum voru eru 17 ára.
Ekið var á konu á fimmtugsaldri á gangbraut á Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði um klukkan 21.30 í gærkvöldi. Konan var flutt á slysadeild og að sögn lögreglu fótbrotnaði hún en er ekki talin í lífshættu.
Eldsvoðar
Eldur kom upp í potti í Giljalandi í Reykjavík um miðnættið. Greiðlega gekk að slökkva en tvær konur voru fluttar á slysadeild með grun um reykeitrun.
Á Garðavegi í Hafnarfirði kom upp eldur á neðri hæð í tveggja hæða húsi en talið er að kveikt hafi verið á eldavélarhellu og kviknað í er hlutir voru lagðir ofan á hana. Vel gekk að slökkva eldinn en einn maður var í húsinu og var hann fluttur á slysadeild vegna gruns um reykeitrun.