Lögregla og björgunarsveitir komu slösuðum gangnamanni í Staðarafrétt til aðstoðar um þrjúleytið í dag. Maðurinn sem er rúmlega fertugur slasaðist í skriðum um 15 kílómetra vestur af Staðarrétt. Hlaut hann opið ökklabrot og var þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til að flytja hann á sjúkrahús.
Skagfirskar björgunarsveitir og flugbjörgunarsveit frá Varmahlíð fluttu lækni á staðinn og gátu hlúð að manninum á meðan beðið var eftir þyrlunni.
Þegar kallið kom var þyrlan stödd sunnan af landinu í öðru verkefni en henni var snúið norður og klukkan 15:45 fór hún af slysstað með manninn á Borgarspítalann í Fossvogi.
Ekki er vitað með vissu hvernig óhappið vildi til en líðan mannsins er talin efir atvikum góð.