Bæjarráð Kópavogs veitti á fimmtudag Goldfinger jákvæða umsögn. Því getur veitingastaðurinn endurnýjað rekstrarleyfi sitt og boðið upp á nektardans í bænum.
Sýslumaðurinn í Kópavogi verður að gefa út leyfið en hann getur ekki synjað Goldfinger um það þar sem allir umsagnaraðilar hafa skilað jákvæðri umsögn. Meirihluti bæjarráðs samþykkti umsögnina, en minnihlutinn greiddi atkvæði á móti.
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, segir að minnihlutinn hafi viljað láta reyna á hvort hægt væri að synja staðnum um leyfi. „Það kemur fram í lögum um veitingastaði að sveitarstjórnir eru líka umsagnaraðilar. Ef það er pólitísk ákvörðun sveitarstjórnar Kópavogs að innan bæjarmarkanna fari ekki fram nektardans þá finnst mér mjög eðlilegt að sveitarstjórn geti lagst gegn því. Við vildum láta reyna á það, hafna leyfinu og sjá síðan hvert framhaldið yrði. Það er hreinlega með ólíkindum að það skuli standa í lögum að nektardans sé bannaður, en svo þegar á reynir þá er ekki hægt að koma í veg fyrir hann.“
Borgarráð Reykjavíkur veitti nýverið tveimur stöðum, Óðali og Vegas, heimild til að bjóða upp á nektardans.
Sú ákvörðun var, líkt og ákvörðun bæjarráðs Kópavogar, byggð á úrskurði dómsmálaráðuneytisins.