„Þetta á ekki að geta gerst. Ristin er þannig gerð að það þarf að hafa fyrir því að troða þessu inn,“ segir Þorgrímur Stefán Árnason, öryggisstjóri hjá Hitaveitu Suðurnesja. Slys varð við spennistöð við Heiðarholt í Reykjanesbæ um klukkan 18.00 í gær, en Hitaveitan á spennistöðina.
Þá brenndist níu ára stúlka á hendi og í andliti þegar hún stakk standara af reiðhjóli inn í 400 volta spennistöðina. Spennistöðin sló út og hverfi urðu rafmagnslaus.
„Við lítum þetta alvarlegum augum og okkur er mjög brugðið,“ sagði Þorgrímur Stefán. „Fólk þarf að átta sig á því að áletrunin Háspenna – Lífshætta er að gefnu tilefni.“
Þorgrímur sagði að stúlkan hefði rekið málmstandara inn um loftræstirist úr málmi og í straumskinnu. Við það hefði myndast svonefndur ljósbogi líkt og við rafsuðu. Hann sagði að gúmmíhulsa á enda standarans hefði einangrað stúlkuna og varnað því að raflost hlypi í gegnum hana. Gúmmíhulsan hefði hindrað að ekki fór verr.