„Henni líður vel núna. Þetta var ekki eins alvarlegt og talið var í fyrstu,“ sagði móðir stúlkunnar sem slasaðist við spennistöð í Reykjanesbæ í gær. Stúlkan stakk málmstöng inn um loftrist á spennistöðinni og við það sló stöðin út. Tvær vinkonur stúlkunnar sem voru með henni sakaði ekki.
„Þetta var bara fikt,“ sagði mamman. Hún sagði dóttur sína ekki muna eftir því sem gerðist en að aðrir hefðu heyrt sprengingu. Stúlkan hljóp heim til skólasystur sinnar þar sem hlúð var að henni og hringt á sjúkrabíl. Hún dvaldi á Landspítalanum í nótt en átti að fá að fara heim í dag, að sögn móðurinnar.