„Þetta er versta veður sem ég hef upplifað og minnir mig einna helst á óveðrið á Látrum í Aðalvík í gamla daga,“ segir Þóra (Lilla) Finnbogadóttir Raborn í Houston.
Fellibylurinn Ike olli miklu tjóni, þegar hann gekk yfir strönd Texas í morgun með allt að sex metra háum öldum, sem skullu á strandsvæðum. Lilla hefur búið í Bandaríkjunum í 45 ár og þar af í 30 ár í Houston. Hún segir að oft hafi blásið en aldrei sem nú.
„Það er allt kolsvart úti og það hvín í öllu,“ sagði Lilla þegar hún vaknaði í morgunsárið. Hún sagði að rafmagnið hefði farið af og ekkert lífsmark væri í nágrenninu.
Houston er fjórða stærsta borg Bandaríkjanna en um fimm milljónir manna búa í borginni og nágrenni hennar. Íbúum var ráðlagt að yfirgefa borgina og segir Lilla að um helmingur íbúa hafi farið en þau hjónin hafi ákveðið að bíða veðrið af sér í húsi sínu enda sé það traust og ekki hætta þar á ferðum.
„Það kom einn fellibylur í fyrra og þá fórum við með hundana og kettina til San Antonio,“ segir Lilla. „Við vorum um 10 tíma á leiðinni, en venjulega tekur ferðin um þrjá til fjóra tíma. Umferðin hreyfðist varla og bílar voru bensínlausir. Því ákváðum við að vera bara heima núna. Ég sauð kjöt, kartöflur og rófur á föstudag og við borðum það við kertaljós þar til rafmagnið kemur aftur,“ segir hún.