Blóðug árás í Þorlákshöfn

Lögreglan á Selfossi rannsakar nú umfangsmikið líkamsárásarmál.
Lögreglan á Selfossi rannsakar nú umfangsmikið líkamsárásarmál. mbl.is/Júlíus

Ungur maður um tvítugt hlaut áverka á hálsi, höndum og efri hluta líkamans er ráðist var á hann með eggvopni í íbúð í Þorlákshöfn í nótt. Lögreglan á Selfossi segir að maðurinn hafi verið við meðvitund er hana bar að garði en ekki hefði mátt miklu muna að verr færi.

Lögreglan var kölluð á vettvang vegna óláta um klukkan tvö í nótt. „Það eru nokkrir einstaklingar í haldi vegna þessa máls," sagði varðstjóri lögreglunnar á Selfossi í samtali við mbl.is.

Mikill saumaskapur

Maðurinn hlaut alvarlega áverka en var ekki talinn vera í lífshættu. „Það er búið að útskrifa hann en það var bara mikill saumaskapur," sagði varðstjóri.

Allmargir voru í íbúðinni og voru margir handteknir þótt þeir hefðu ýmist réttarstöðu grunaðs eða vitnis. Allt er þetta fólk er um tvítugt og af erlendum uppruna og því taka yfirheyrslur með aðstoð túlks langan tíma.

Lögreglan var lengi á vettvangi í nótt og þurfti að fá aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að kortleggja og rannsaka íbúðina.

Umfangsmikið mál og ófundið eggvopn

„Þetta er umfangsmikið mál, þetta eru nokkrir aðilar sem þarf að yfirheyra og bera saman framburði og fleira," sagði varðstjóri.

Ekki er vitað hvernig eggvopni var beitt og segir lögreglan að vopnið sé enn ófundið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert