Mál Ellu Dísar Laurens hefur vakið töluverða athygli í fjölmiðlunum undanfarið. Ella Dís berst við óþekktan sjúkdóm en nýlega tók móðir hennar, Ragna Erlendsdóttir, ráðin í sínar hendur og leitaði læknismeðferðar í Bandaríkjunum, þvert á ráðleggingar lækna hér heima.
Þrátt fyrir að ferðin hafi skilað árangri neitar Tryggingastofnun að greiða háan spítalareikninginn, þótt ákveðið hafi verið að veita mæðgunum tveggja milljóna króna styrk. Í kjölfarið hefur þeim spurningum verið velt upp hver staða foreldra sé þegar þeir vilja leita annarra leiða en þeirra sem læknar mæla með og hver hefur að lokum síðasta orðið.
Mál Ellu Dísar er alls ekki einsdæmi, segir Sigurður Guðmundsson landlæknir. Reglulega kemur fyrir að fólk kýs, þvert á vilja lækna, að leita sér lækninga erlendis en Sigurður segir annan kost fyrir hendi sem lítið er talað um og er vannýttur. Sá er að leita álits annars læknis innanlands. Eins einfalt og það hljómar eru fáir sem nýta sér kostinn, ólíkt t.d. Bandaríkjamönnum sem hika ekki við að leita til annarra lækna líki þeim ekki þau úrræði sem þeim hafa verið boðin.
„Þetta er ekki jafnmótað í þjóðarsál okkar,“ segir Sigurður og viðurkennir að vissulega hafi komið fyrir hér á landi að læknar móðgist hafi sjúklingar leitað eftir áliti annars læknis. Þessum valkosti þurfi að halda meira á lofti þar sem réttur fólks til að leita álits hjá öðrum sé mjög skýr og greinilegur.
Sigurður segir að í þeim tilfellum þar sem sjúklingar krefjist meðferðar erlendis sé yfirleitt um að ræða flókna sjúkdóma sem erfiðir eru meðferðar. Sjúkdómsferillinn sé orðinn langur og erfiður og eðlilega miklum tilfinningum hlaðinn. Ómögulegt sé að ætlast til þess að sjúklingarnir, eða forráðamenn þeirra, hafi tök á að greiða úr því magni læknisfræðilegra upplýsinga sem flætt hafi yfir þá. Erfitt sé að átta sig á því hvaða ráð sé skynsamlegt að þiggja og hverjum eigi að hafna. Hér á landi þurfi að vera öflugt kerfi til að hjálpa fólki úr slíkum ógöngum.
Sigurður ítrekar þó að besta ráðið sé einfaldlega að tala við aðra lækna. Hægt sé t.d. að leita til Landlæknisembættisins eftir ráðgjöf.