Grunuðu Lund um græsku

mbl.is/Brynjar Gauti

Greint er frá því á einum af fréttavefjum Jyllands-Posten að íslenskir meðeigendur Morten Lund að danska fríblaðinu Nyhedsavisen hafi haft grun um að hann hefði gert leynilegt samkomulag um að hætta útgáfu blaðsins, gegn greiðslu. 

Samkvæmt heimildum Jyllands-Posten, ræddi Lund við Þórdísi Sigurðardóttur, fulltrúa Stoða Invest, er hann var á fundi með ráðgjöfum sínum og lögfræðingum um klukkan 22.00 sunnudaginn 31. ágúst. Sakaði hún hann þá um að hafa gert samning um að hætta útgáfu blaðsins gegn greiðslu en Stoðir eiga 15% hlutafjár í útgáfufyrirtæki þess. 

Tveir menn, sem viðstaddir voru á fundinn og blaðamaður Jyllands-Posten hefur rætt við, segja hana hafa verið mjög reiða yfir því að ákvörðun um lokun blaðsins hafi ekki verið borin undir íslenska meðeigendur. Þá er hún sögð hafa boðist til að leggja sjö milljónir danskra króna á borðið til að tryggja að blaðið gæti komið út næsta dag.

Ekki var greint frá því opinberlega fyrr en tíu dögum síðar að ýmislegt benti til þess að Lund hafi samið við David Montgomery, forstjóra Mecom, um að hætta útgáfu blaðsins gegn greiðslu.

Er Montgomery sagður hafa verið reiðubúinn til að greiða honum 139 milljónir danskra króna fyrir að hætta útgáfunni. Lund staðhæfði sjálfur í dönskum fjölmiðlum um helgina að hann hafi ákveðið að ganga ekki að þeim samningi áður en hann komst í hámæli. Hann hafi þó íhugað að taka tilboðnu til að draga sem mest úr tapi lánadrottna.

Samkvæmt heimildum Jyllands-Posten stóð hins vegar í samningsdrögum sem gerð voru að fjárhæðin ætti að renna til fyrirtækisins Comet Media Limited, sem félagi Lund, Morten Søndergaard Pedersen, rekur á Mallorca.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert