Kópavogsbúar þenja sig í 30 þúsund

„Við erum alveg á bullandi ferð í 30 þúsund og reiknum með að það verði í febrúar eða mars á næsta ári, eða jafnvel fyrr,“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.

Þar á bæ vakta menn nú stíft hækkandi íbúatölu, bæði aðfluttra og nýfæddra, því ætlunin er að verðlauna 30 þúsundasta Kópavogsbúann með einhverjum hætti. Íbúum hefur fjölgað mjög hratt í Kópavogi síðustu ár og búa þar nú yfir 29.800 manns en í upphafi árs voru þar 28.680 manns. Nái bæjarbúar þriðja tugnum á þessu ári er fjölgunin því um 1.300 manns.

„Við heimsóttum 20 þúsundasta íbúann þegar það gerðist í kringum 1998, en við reiknuðum jafnvel með því að það myndi draga eitthvað úr þessu núna. Það hefur hins vegar ekki verið.“ Gunnar gefur ekki uppi hvað verði gert til að heiðra þann Kópavogsbúa sem fyllir tuginn en heitir því að það verði gert með viðhöfn. Hann neitar því að bæjaryfirvöld standi í sérstökum aðgerðum til að lokka fólk í bæinn. „Það þarf ekkert að gera það, fólk kemur af sjálfsdáðum því það veit að það er gott að búa í Kópavogi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert