Vatnalaganefnd hefur lokið athugun sinni á nýjum vatnalögum nr. 20/2006 og er einhuga um að leggja til að gildistöku laganna verði frestað meðan unnið verði að breytingum á þeim. Nefndin setur fram tillögur að breytingum í fjórum tölusettum liðum og leggur jafnframt til að þær verði unnar samhliða innleiðingu vatnatilskipunar ESB í íslenskan rétt.
Nefndin hefur skilað tillögum sínum til iðnaðarráðherra, ásamt ítarlegri skýrslu um vatnsréttindi og vatnalöggjöf, að því er segir í tilkynningu.
Skipun Vatnalaganefndar átti rætur að rekja til samkomulags um meðferð frumvarps til vatnalaga sem gert var á Alþingi vorið 2006 en með því var þess freistað að binda enda á þær erfiðu og miklu deilur sem uppi höfðu verið um efni frumvarpsins.
Samkomulagið fól í sér að gildistöku vatnalaga skyldi frestað og að jafnframt að iðnaðarráðherra skyldi skipa nefnd til að fara yfir lögin og skoða samræmi þeirra við önnur lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða.
Að fengnum tilnefningum frá þingflokkum á Alþingi og iðnaðar- og umhverfisráðherra voru skipaðir í nefndina alþingismennirnir Lúðvík Bergvinsson, sem jafnframt var formaður, Sigurður Kári Kristjánsson, Katrín Júlíusdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, lögmennirnir Stefán Bogi Sveinsson og Tryggvi Agnarsson og Bryndís Hlöðversdóttir aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst. Starfsmaður nefndarinnar var Aagot V. Óskarsdóttir lögfræðingur. Nefndin tók til starfa 14. mars sl. og hélt alls 13 fundi.
Í nefndinni ríkti einhugur um nauðsyn þess að færa umræðu um vatnalögin og vatnamálin upp úr þeim farvegi deilna og ágreinings sem hún hafði fest í. Taldi nefndin brýnt að leita allra leiða til að ná sátt um grundvallarforsendur vatnalöggjafarinnar og um réttindi almennings og landeigenda gagnvart vatni. Vatnalaganefnd var sammála um að það sé í allra þágu að regluverk um auðlindina sé skýrt og að um það ríki sátt til lengri tíma. Slíkt auðveldi stefnumótun um nýtingu og vernd til framtíðar, samkvæmt tilkynningu.
Vatnalaganefnd lagði áherslu á að líta á vatnamálin í víðara samhengi og styrkja fræðilegan grundvöll þeirra. Fól hún nokkrum fræðimönnum að skrifa ritgerðir og fræðilegar greinargerðir um ýmsa þætti þeirra. Þessi gögn hafði Vatnalaganefnd til hliðsjónar í starfi sínu.
Nefndin taldi mikilvægt að takast á við þau ágreiningsefni sem uppi hafa verið um vatnalögin og móta ákveðnar tillögur sem gætu verið grundvöllur almennrar sáttar um áframhaldandi þróunar vatnalöggjafarinnar, þrátt fyrir að skipunarbréf nefndarinnar kvæði ekki skýrlega á um beina tillögugerð. Eins og áður segir náðist þverpólitísk samstaða í nefndinni um þær tillögur sem nefndin leggur fram.
Tillögur Vatnalaganefndar
„Með hliðsjón af niðurstöðum sínum gerir Vatnalaganefnd tillögur að endurskoðun vatnalaga nr. 20/2006. Þær eru settar fram í fjórum liðum en ber að skoða sem órofa heild. Tillögurnar beinast að ákveðnum þáttum en ekki er útilokað að einhverjar frekari breytingar séu nauðsynlegar til að tryggja innra samræmi laganna.
1. Réttindaákvæði 4. gr. vatnalaga nr. 20/2006
Vatnalaganefnd telur nauðsynlegt að orðalag réttindaákvæðis 4. gr. laganna verði endurskoðað þannig að tryggt verði að fullnægjandi tillit verði tekið til hagsmuna almennings. Í þessu sambandi minnir nefndin á þann löggjafarvilja að baki samþykkt vatnalaga nr. 20/2006 að ekki yrði um að ræða breytingu á inntaki réttinda landeigenda frá núgildandi rétti. Skilgreining réttindanna verður þannig að taka mið af því að þetta markmið náist og þarf því að endurspegla samspil réttinda landeigenda og almennings þannig að ljóst sé að réttindi beggja séu takmörkuð vegna hagsmuna hins eins og skýrt má ráða af jákvæðri skilgreiningu vatnalaga nr. 15/1923 á umráða- og hagnýtingarrétti landeigenda.
Jafnframt þessu þarf að mati Vatnalaganefndar að kveða skýrt á um þær heimildir sem rétt þykir að almenningur hafi gagnvart vatni, svo sem um rétt til umferðar um vötn, rétt til baða og til neyslu vatns í eignarlöndum, sem og þær takmarkanir sem þeim rétti verða settar með tilliti til hagsmuna landeigenda. Ennfremur er nauðsynlegt að mörk þeirra heimilda sem VII. kafli vatnalaga nr. 20/2006, um mannvirki, mælir fyrir um verði skýrð með hliðsjón af meginreglunni í 13. gr. laganna og að skýrar verði kveðið á um að hvaða leyti þær lúti takmörkunum vegna hagsmuna almennings og annarra einstaklinga.
2. Markmiðsákvæði vatnalaga
Nefndin leggur til að markmiðsákvæði vatnalaga nr. 20/2006 verði endurskoðað með það í huga að það endurspegli betur fjölþætt hlutverk vatnalöggjafar, þ.e. að lögin taki mið bæði af hagsmunum landeigenda og almennings og leggi áherslu á samfélagslega hagsmuni tengda nýtingu og vernd vatnsauðlindarinnar.
3. Stjórnsýsla vatnamála
Þá er það tillaga Vatnalaganefndar að fram fari endurskoðun á stjórnsýsluákvæðum vatnalaga nr. 20/2006 sem miði að því í fyrsta lagi að tryggja að við meðferð mála samkvæmt lögunum verði litið til ólíkra hagsmuna sem við vatnsauðlindina eru tengdir; í öðru lagi að ákvæðin verði gerð skýrari og að betur verði hugað að samræmi við stjórnsýsluákvæði annarra laga á þessu sviði; og í þriðja lagi að skipulag stjórnsýslu vatnamála verði gert heildstæðara og í því sambandi verði tekið mið af ákvæðum vatnatilskipunar ESB (2000/60/EC).
4. Frestun gildistöku og skipun nefndar
Að lokum leggur Vatnalaganefnd til að gildistöku vatnalaga nr. 20/2006 verði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð verði á vegum iðnaðarráðherra, og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, vinni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur Vatnalaganefndar."