Krefst gæslu vegna árásar í Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn.

Lögreglan á Selfossi krefst gæsluvarðhalds yfir meintum árásarmönnum í Þorlákshöfn eftir alvarlega líkamsárás aðfaranótt sunnudags. Mikil mótþrói var í einum hinna handteknu þegar á lögreglustöð kom.

Fimm menn voru handteknir í íbúð í Þorlákshöfn þar sem ráðist hafði verið á mann með eggvopni og hann særður mikið. Farið var með þrjá sakborninga fyrir dómara í gærkvöldi en hann tók sér frest til kl. 20 í kvöld til að úrskurða um gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar. Tæknirannsókn í íbúðinni og frekari yfirheyrslur verða gerðar í dag að sögn Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra. Mun það skýrast á næstu klukkustundum hvort tilefni sé til að krefjast gæsluvarðhalds yfir fleirum í málinu.

Lögreglumenn mættu miklum mótþróa af hálfu eins hinna handteknu og þurfti fimm lögreglumenn til að yfirbuga hann á lögreglustöð. Enginn meiddist í þessum átökum. „Hann hreinlega réðist að lögreglumönnum og var ógnandi,“ segir Ólafur Helgi. „Það flugu líflátshótanir en það voru nægilega margir lögreglumenn á stöðinni til að ráða við hann.“

Ólafur Helgi segir lögreglumenn þekkja það mjög vel að þeim sé hótað og sjálfur hefur lögreglustjórinn orðið fyrir árás einstaklings sem dómstólar dæmdu refsiverða fyrir nokkrum misserum. „Þetta virðist heldur versna og menn grípa til hótana og illinda í ríkari mæli en áður,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert